top of page

ALÞINGISREITUR

2008-2012

Í miðbæ Reykjavíkur er hinn svonefndi Alþingisreitur. En þar fór fram ein umfangsmesta fornleifarannsókn á Íslandi. Rannsóknin leiddi í ljós nýjar upplýsingar um landnám Íslands, samfélagsgerð, búskaparhætti, þróun búsetuforms og verkmenningu frá níundu öld og fram á elleftu.

Uppgröfturinn á Alþingisreitnum

Þegar uppgröfturinn hófst sumarið 2008 varð ljóst að í jörðinni væru töluverðar mannvistarleifar frá fyrri tíð. Leifar frá 18.-20. öld voru þekktar út frá rituðum heimildum; annálum, konungabréfum, kortum, málverkum o.fl., og fór ekki á milli mála að ágangur manna hafði verið töluverður á undanförnum öldum. Hinsvegar var ekki ljóst hvort leifar af eldri mannvirkjum væri þarna að finna. Þótti það heldur ólíklegt þar sem þetta svæði var ekki talið ákjósanlegt til að byggja á. Helsta ástæðan fyrir því var sú að Tjörnin, sem fyllt hafði verið upp í við Vonarstræti undir lok 19. aldar, var talinn hafa náð upp að umræddu uppgraftarsvæði með tilheyrandi votlendi og mýrum. En annað kom á daginn er á leið uppgröftinn. Greinileg skil á votlendi og þurrlendi voru fyrir miðjum reitnum. Hafði því verið byggt á þurrlendinu frá fyrstu tíð með tilheyrandi búskap og iðnaði. Meðan á þeim búskapi stóð var afgöngum og ónýttum efniviði hent í votlendið. Skepnur hafa verið á beit á þessu svæði, menn skorið upp torf og mó, safnað mýrarrauða, höggvið eldivið og jafnvel fært guðum sínum fórnir. Hægt er að sjá fyrir sér ýmislegt sem hefur átt sér stað á þessu svæði, en ekki hægt að festa á það hendur nema að takmörkuðu leyti. Er það einn af ókostum slíkra svæða sem mýrin er, út frá fornleifafræðilegum forsendum, að engin uppsöfnuð mannvistarlög myndast því að svæðin eru einungis nýtt með takmörkuðum hætti og skilja því lítið eftir sig. Þó hafa hinar lífrænu leifar varðveist ótrúlega vel í aldanna rás og gert okkur kleift að skilja betur umfang landnámsins. Einnig hafa vaknað upp spurningar sem erfitt er að svara, en hefðu aldrei komið til nema vegna góðra varðveisluskilyrða.

Eftir miðja 11. öld fer að gæta breytinga í jarðlögum og mannvistar á svæðinu, en erfitt er að henda reiður á því. Þó virðist langur vegur vera á milli landnámsminjanna og þeirra minja sem tilheyra III fasanum eða tímanum frá 1226-1500. Landnámsminjarnar benda til samfélags sem byggist á járnvinnslu og öðrum hefðbundnum störfum sem tilheyrðu húshaldi og verkmenningu þessa tíma, s.s. kolagerðar, kornþurrkunar, ullarverkunar, skógarhöggs, bátasmíða, verkfærasmíða o.fl. Einnig kom greinilega fram að svæðið er vel skipulagt og valið bæjarstæði með tilliti til ákveðinna þátta sem til þurfti til húshaldsins og hentaði þeirra skipulagi. Má þá helst nefna veðursæld, ána og Tjörnina þar sem möguleiki hefur verið á því að draga skip í var, mýrina með tilheyrandi auði; torf, mó og mýrarrauða, skóglendi, eyjar, eggver, selstöður, útræði, ferskt vatn, heitt vatn og svona mætti lengi telja. Þykir því ljóst að hér hafi verið upplagt bæjarstæði með tilheyrandi nytjum. En erfiðara er að geta sér til um hversu langlíft landnámið var. Þó er hægt að segja að undir miðja 13. öld verða áherslubreytingar á efnahagi, búskap og lífsháttum þeirra er hér bjuggu. Það sem getur hafa valdið því má lesa í skýrslunni (sjá slóð hér að ofan í skýrslu), en í stuttu máli virðist sem að loftslags- og umhverfisbreytingar hafi ráðið þar mestu um ásamt menningarlegum þáttum, en undir lok 12. aldarinnar verða miklar umbreytingar bæði á náttúru og menningu.

Fornleifarnar á reitnum benda til breyttra starfshátta og kemur það best fram á svæði C þar sem útgerðarsvæði frá þessum tíma kom í ljós, sem notað var í rúma öld eða svo. Á þessum tíma virðist aðaláherslan hafa verið á sjávarútveg, en þó er ekki hægt að alhæfa um það þar sem aðrar leifar gefa lítið annað til kynna en að hér hafi verið stundaður sjávarútvegur. Eftir 1500 verða svo önnur þáttaskil á svæðinu en þá er útgerðarsvæðið liðið undir lok og við tekur öskuhaugur sem sennilega hefur tilheyrt nærliggjandi bæjum. Í þessum ruslahaugi var mikið af beinum bæði af húsdýrum og fiski og virðist vera töluvert jafnræði í nýtingu þessara dýra og þeirra afurða. Hvað varðar byggingar er aðeins um að ræða tvö útihús, heygarð, bryggju og ruslagryfju sem tilheyrt hafa þessu tímabili eftir 1500 og fram að tíma Innréttinganna sem hefst 1751. En þó setur það strik í reikninginn að byggingar frá yngstu tíð hafa skemmt töluvert af fyrri mannvirkjum og því ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið veglegri mannvirki eftir 1500.

Ljóst þykir, þegar Alþingisreiturinn er settur í samhengi við nánasta umhverfi sem þegar hefur verið rannsakað, að hér hafi verið umfangsmikið landnám. Má þá helst nefna íveruhús og smiðjur sem grafin voru upp á 8. áratug síðustu aldar við Suðurgötu 3-5, hluta af íveruhúsi við Suðurgötu 7, 1982, hluta af íveruhúsi og túngarði við Aðalstræti 14-16, 1976, skála við Aðalstræti 18, 2002 og skála við Lækjargötu 2012. Ekki hafa öll þessi mannvirki verið reist samtíða, enda liggur það í augum uppi, þó eru þær á því aldursbili sem um ræðir, þ.e. frá miðri 9. öld til upphafs 11. aldar og mörg þeirra marg-fasa byggingar sem geta átt sér langan líftíma og er skálinn við Aðalstræti besta dæmið um slíka fasa skiptingu. Einnig er talið að annar skálinn sem fannst við Suðurgötu 3-5 hafi haft tvo fasa og þær tvær smiðjur sem fundust verið frá lokum 9. og 10. aldar. Ekki er við því að búast, miðað við þau afmörkuðu svæði sem til rannsóknar hafa verið hverju sinni, að hægt hafi verið að fá fram heildstæða mynd af þyrpingu húsa eða jafnvel litlu þorpi frá upphafi byggðar hér í miðbæ Reykjavíkur, enda eru umrædd svæði mikið skemmd vegna seinni tíma framkvæmda. Þó væri einkennilegt ef ekki væri litið á þessar fornleifar í samhengi og þá sérstaklega eftir að við bættust þær fornminjar sem á Alþingisreitnum hafa fundist. Ekki fundust íveruhús á Alþingisreitnum, heldur skipulagt athafnasvæði landnemanna þar sem verkmenning og fjölbreytt starfsemi og innsýn í þeirra hversdagsbúskap endurspeglaðist í mannvirkjum, gripum, beinum og öðrum efniviði. Liggur því beinast við að nærliggjandi íveruhús, sem aldursgreind hafa verið til þessa tíma, hafi verið byggð af sömu mönnum og þeirra afkomendum. Má segja að við blasi, þegar litið er heilt yfir það svæði sem við köllum Kvosina í Reykjavík, að hér hafi strax í upphafi 9.aldar byrjað að myndast vísir að þorpi sem síðan óx með hverju ári allt undir lok 11.aldar en þá virðist eiga sér stað mikil umbreyting í búskapar- og lifnaðarháttum og við siglum inn í aðra tíma.

  • Facebook

©2020 by vgfornleifar.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page