top of page

LANDSSÍMAREITUR

2016-2018

Vettvangsrannsóknin á Landssímareitnum í miðbæ Reykjavíkur á árunum 2016–2018 hefur leitt í ljós mannvist og mannvirki allt frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar til okkar daga. Umfang þeirra minja sem rannsakaðar voru gefur til kynna fjölbreytt mannlíf og ríka verkmenningu í Kvosinni. Þrátt fyrir að flest ef ekki öll mannvirkin hafi verið sundurskorin af framkvæmdum í áranna rás má sjá brotakennda mynd af mannvirkjum og mannlífi í Reykjavík á liðnum öldum. Af þeim hluta Víkurkirkjugarðs sem rannsakaður var fékkst ágæt mynd af kirkjugarðinum eins og hann var á 17. og 18. öld og greftrunasiðum á þeim tíma þótt við honum hafi verið hróflað á seinni tímum. Heildarfjöldi grafa og einstaklinga sem þarna voru liggur ekki fyrir með vissu því að bæði framkvæmdir við Landssímahúsið árið 1967 og framkvæmdir við bakhús Kirkjustrætis frá 1915 hafa raskað fjölda grafa. Þó voru grafnar upp 38 grafir við rannsóknina. Þau bein sem til rannsóknar voru eru mörg hver í góðu ásigkomulagi. Úr gröfum sem verst fóru vegna framkvæmda var í flestum tilvikum hægt að finna hluta beinanna í uppfyllingarlögum og setja þau í samhengi. Frekari rannsóknir munu varpa enn betra ljósi á þróun kirkjugarðsins. Minjar sem tengdust apótekinu voru mjög raskaðar og ekki hægt að fá neina skýra mynd á elstu húsin frá þeim tíma. Aftur á móti fannst töluvert af gripum sem má tengja við starfsemina á svæðinu. Mannvistarlög þau sem voru aldursgreind aftur til 9.–10. aldar, á svæði A, B og C (sjá kort), er enn ein staðfestingin á blómlegu mannlífi í Kvosinni í upphafi landnáms. Öllu erfiðara er að svara hvernig mannlífið síðan þróaðist því að mannvirki frá miðöldum virðast fara verst út úr framkvæmdum við þéttbýlisþróun í Kvosinni á 19. og 20. öld. Bundnar eru vonir við að hægt verði að greina og skilja betur þau mannvirki sem rannsökuð voru á svæði C og aldursgreind eru aftur til 12.–13. aldar. Slík mannvirki eru, eins og áður segir, örfá í Reykjavík og er því um afar mikilvægar og áhugaverðar upplýsingar að ræða sem eru til þess fallnar að varpa skýrara ljósi á búsetuþróun í Reykjavík eftir 12 .öld. Meðal forvitnilegra gripa sem fundust var snældusnúður með rúnum en hvergi annars staðar hafa fundist jafnmargir gripir með rúnum eins og í Kvosinni; þetta er þriðji snældusnúðurinn með áristum rúnum frá Víkingöld sem finnst í Kvosinni. Einnig komu brotakenndar minjar frá tímum Innréttinganna í ljós en töluvert fannst af gripum frá þeim tíma sem eru til vitnis um efnismenninguna á 18. öld. Undir Nasa eða öllu heldur gamla Kvennaskólanum fundust hlaðinn 2-3 fasa brunnur og hleðslur en ekki hefur verið hægt að aldursgreinar þær minjar enn sem komið er, en líklegt þykir að elsti hluti brunnsins nái allt aftur til 9.-11.aldar. Menningarsaga miðbæjarins í Reykjavík er löng þótt höfuðborgin Reykjavík sé ung í hinu stóra samhengi. Í Kvosinni hafa verið tímabil í sögunni þar sem mannlífið virðist blómstra en svo eru mannvistarlög eða miklu frekar skortur á þeim sem benda til rénunar á framþróun og mannvist á öðrum tímum. Rannsóknin á Landssímareitnum bætir við þekkingu okkar á búsetuþróun í Reykjavík frá upphafi til okkar daga. Er mikilvægt að halda rannsóknum áfram og halda til haga samhengi sem rannsóknir undanfarinna áratuga varpa ljósi á, séu niðurstöður þeirra lesnar saman. Lokaskýrsla um Landssímareitinn er í farvatninu en frekari rannsóknir verða gerðar á minjum og munum sem komið hafa upp við fornleifagröftinn. Margar spurningar hafa vaknað við úrvinnsluna sem kalla á frekari túlkun og greiningar. Rannsókninni er því ekki lokið, úr ýmsu á eftir að vinna, en stefnt er að því að lokaniðurstöður birtist í riti í árslok 2021.

  • Facebook

©2020 by vgfornleifar.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page